Ferill 1042. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1521  —  1042. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um niðurlagningu Útlendingastofnunar.


Flm.: Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Indriði Ingi Stefánsson.

    
    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að hefja undirbúning þess að leggja Útlendingastofnun niður og færa starfsemi hennar til Þjóðskrár Íslands og eftir atvikum annarra stofnana eða embætta. Ráðherra skipi í þessu skyni starfshóp sem meti áhrif breytinganna, þ.m.t. á ríkissjóð, greini hvaða lagabreytinga og annarra aðgerða sé þörf og leggi drög að nauðsynlegum lagabreytingum í samstarfi við önnur ráðuneyti og að höfðu samráði við helstu fag- og hagsmunaaðila. Stefnt verði að því að undirbúningi verði lokið eigi síðar en í september 2025 og að yfirfærslan taki gildi 1. janúar 2026. Ráðherra flytji Alþingi munnlega skýrslu um gang verkefnisins á þriggja mánaða fresti frá samþykkt þingsályktunartillögu þessarar.

Greinargerð.

    Tillaga þessi til þingsályktunar var áður lögð fram á 146. löggjafarþingi (384. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt í lítillega breyttri mynd.
    Markmið tillögunnar er að minnka yfirbyggingu, einfalda regluverk og auka skilvirkni stjórnsýslunnar í málefnum erlendra ríkisborgara hér á landi án aðgreiningar. Umsjón með málefnum erlendra ríkisborgara, svo sem dvalarleyfisumsóknum, búsetuskráningu o.fl., er nú þegar að einhverju leyti skipt á milli Útlendingastofnunar og Þjóðskrár Íslands eftir því hvort einstaklingur er borgari ríkis innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. Að mati flutningsmanna er slík tvískipting ónauðsynleg, óskilvirk og kostnaðarsöm.
    Niðurlagning Útlendingastofnunar og færsla verkefna hennar til Þjóðskrár eða annarrar sameinaðrar stofnunar yrði til þess að útlendingar sem koma til landsins gætu allir leitað þjónustu hjá sömu stofnun, hvaðan sem þeir koma. Í skýrslu starfshóps þriggja ráðuneyta sem settur var saman af hálfu innanríkisráðuneytisins árið 2011 og skilaði af sér skýrslu 2012 var lagt til að sett yrðu ný heildarlög um málefni útlendinga þar sem lög um atvinnuréttindi útlendinga yrðu sameinuð lögum um útlendinga. Þá lagði Ríkisendurskoðun til í skýrslu um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi árið 2015 að lagaákvæði yrðu samræmd og einfölduð og forræði mála færð til einnar stofnunar og eins ráðuneytis svo að stjórnsýslan yrði í senn hagkvæmari og skilvirkari en nú er. Í skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, Greining á þjónustu við flóttafólk, sem kom út 27. febrúar 2017, er að finna greiningu á lagalegri og stjórnsýslulegri aðgreiningu málefna útlendinga. Í skýrslunni er m.a. lagt til að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd.
    Í fjárlögum fyrir árið 2023 var gert ráð fyrir 670,7 millj. kr. úr ríkissjóði til rekstrar Útlendingastofnunar, en 649,2 millj. kr. fyrir árið 2024. Óhjákvæmilegt er að flutningi verkefna á milli stofnana fylgi ákveðinn upphafskostnaður en gera má ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði engu að síður lægri með tilfærslunni, m.a. þar sem yfirbygging minnkar, stjórnendum fækkar og möguleikar opnast á aukinni skilvirkni með samnýtingu vinnuafls, aðstöðu og aðfanga. Samkvæmt tillögu þessari er gert ráð fyrir að starfshópur á vegum ráðherra meti til hlítar þau kostnaðaráhrif sem yfirfærslan hefði á ríkissjóð.